Þegar hljóð myndast, hvort sem um er að ræða mannsrödd eða annað hljóð, þá fara loftsameindirnar næst hljóðgjafanum á hreyfingu. Við þetta myndast hljóðbylgja sem við skynjum sem hljóð með ákveðna tíðni (tónhæð) og styrk. Með tíðni hljóðs er átt við hversu oft hljóðbylgjan sveiflast á sekúndu. Því lægri sem tíðnin er því dimmara er hljóðið og því hærri sem tíðnin er því skærara er það. Með styrk er átt við kraft hljóðbylgjunnar. Til fróðleiks má geta þess að við sjávarmál berst hljóð í andrúmslofti u.þ.b. 344 metra á sekúndu við 20° C. Til samanburðar þá er hraði ljóss tæplega 300.000 metrar á sekúndu.
Af hverju verður erfiðara að fylgjast með samtali?
Það sem veldur því að erfitt getur verið að fylgjast með samræðum þegar viðkomandi er með heyrnarskerðingu er að innihald talmáls hefur að geyma mörg mismunandi hljóð sem borin eru fram mjög hratt. Mýkri samhljóðar eins og “f”, “s” eða “t” geta horfið úr orði vegna sterkra sérhljóða eins og “a”, “o” og “ú”. Þannig að þegar einhver segir “stofa” þá heyrir sá sem er heyrnarskertur s_o_a. Viðkomandi neyðist til að geta í eyðurnar á meðan samtalið heldur áfram og týnir þræðinum.
Á fundum og samkomum er ekkert verra en að þurfa að biðja fólk um að endurtaka það sem sagt er. Sá sem er heyrnarskertur á það til að kenna viðmælendum sínum um að muldra en í raun er það heyrnin sem er farin að dofna. Samskipti verða smám saman erfiðari og að lokum dregur viðkomandi sig í hlé.
Vissir þú að hljóð eins og fuglasöngur, fótatak og þytur í laufi eru fyrstu hljóðin sem hverfa án þess að þú takir eftir því?
Ef þú heyrir ekki ofangreind hljóð gæti einnig verið að þú heyrir ekki mikilvæg hljóð í talmáli sem veldur því að einstök orð verða dauf og óskýr.