Einkenni og orsakir
Einkenni heyrnarskerðingar
Heyrn skerðist oft á löngum tíma og oft eru það ættingjar eða vinir sem taka fyrst eftir breytingu á heyrn. Ef þú ert með skerta heyrn þá hafa þeir sem eru í kringum þig oft á tilfinningunni að þú hlustir ekki nógu vel eða kvarta undan því að sjónvarpið sé of hátt stillt. Þú tekur eftir því að erfiðara verður að heyra í fjölmenni og klið og upplifir jafnvel að aðrir tali óskýrt, sér í lagi unga fólkið eins og barnabörnin. Þegar heyrn skerðist þá þýðir það ekki endilega að öll hljóð verði daufari. Algengast er að geta til að heyra hátíðnihljóð dofni og þar af leiðandi verður talmál óskýrara en áður. Þú þarft að leggja meira á þig til að heyra og fylgjast með því sem verið er að segja.
Orsakir heyrnarskerðingar
Skert heyrn er oft tengd við hækkandi aldur en sú er þó ekki alltaf raunin. Þrátt fyrir að fólk á öllum aldri geti misst heyrn þá er algengast að heyrnarskerðing komi fram eftir 65 ára aldurinn. Aðrar orsakir heyrnarskerðingar geta verið sýkingar, sjúkdómar í eyra, slys, hávaði, lyf o.fl.
Aldurstengd heyrnarskerðing
Út frá tölfræði má segja að við byrjum að missa heyrn á þrítugs- og fertugsaldri! Aldurstengd heyrnarskerðing kallast á fræðimáli Presbyacusis. Hún orsakast af skemmdum á örsmáum hárfrumum í innra eyra en þessar frumur vaxa ekki aftur og því er skerðingin varanleg.
Hávaðatengd heyrnarskerðing
Þessi tegund heyrnarskerðingar verður til vegna mikillar viðveru í hávaða. Vélvirkjar, smiðir, bændur, starfsfólk í verksmiðjum, lögreglumenn og jafnvel kennarar eru oft útsett fyrir miklum hávaða. Ráðlagt er að nota heyrnarhlífar til að vernda heyrnina og koma í veg fyrir ótímabæra heyrnarskerðingu.