fbpx

Tegundir heyrnarskerðingar

Tegundir heyrnarskerðingar

Hægt er að skipta tegundum heyrnarskerðingar í þrjá flokka; leiðniskerðing (e. conductive hearing loss), skyntaugaskerðing (e. sensorineural hearing loss) og blönduð skerðing (e. mixed hearing loss), þegar um er að ræða bæði blöndu af bæði leiðnitapi og skyntaugaskerðingu.

Leiðniskerðing

Orsakir leiðniskerðingar er að finna í ytra- eða miðeyra, þegar hljóð berst ekki á eðlilegan hátt til innra eyrans.  Hugsanlegar ástæður þessarar tegundar heyrnarskerðingar eru gat á hljóðhimnu, sýking eða vökvi í miðeyra og skemmd á eyrnabeinunum.  Þessi tegund heyrnarskerðingar getur verið bundin við annað eyrað.  Komi leiðniskerðing í ljós við heyrnarmælingu er tilvísun til háls-, nef og eyrnalæknis nauðsynleg.

Skyntaugaskerðing

Þessi tegund heyrnarskerðingar á sér stað þegar fíngerðar skyntaugafrumur eða hárfrumur í innra eyra verða fyrir óafturkræfum skemmdum eða þegar truflun verður á flutningi eða skynjun hljóðs til heilans.  Algengustu orsakir skyntaugaskerðingar eru hækkandi aldur og viðvera í miklum hávaða.  Í flestum tilfellum er þessi tegund heyrnarskerðingar varanleg og bundin við bæði eyru.